miðvikudagur, október 19, 2005

Svar: Cult of ugly

Það er mjög viðeigandi að það hafi verið vísað í þessa áhugaverðu grein eftir Steven Heller nú akkúrat þegar ég er búinn að vaða, með erfiðleikum, í gegn um heimspekilegar kenningar John Dewey um fagurfræðilega upplifun. En ég fer kannski eitthvað í hann á eftir ef mér finnst það passa við svar mitt.

Fyrsta spurningin sem kemur upp í huga minn við lestur greinarinnar er: Getur fegurð (og/eða ljótleiki) verið eitthvað annað en huglægt mat áhorfandans? Er hægt að byggja skilning þessara hugtaka á reglum og viðmiðum eins og „...preference for balance and harmony serve as the foundation for even the most unconventional compositions.“

Sjálfur tel ég mig aðhyllast ákveðinn funksjónalisma. Ég er undir áhrifum frá módernistunum þar sem hugmyndir mínar um fegurð byggjast að mestu leiti á virkni hlutanna og sterku samhengi milli forms og inntaks/hlutverki. Fyrir mér er grafísk hönnun aðeins góð ef hún „heppnast.“ Það er kannski þessvegna sem að á síðari árum hef ég tekið upp að mestu leyti aðferðir internationalistanna hvað týpógrafíu og samsetningu varðar. Mér finnst þær aðferðir einfaldlega „virka“ best í flestum tilfellum.

Hinsvegar hef ég nokkrum sinnum lent í því að sú nálgun á ekki við það viðfangsefni sem ég á að vinna með. Þá hef ég spurt mig að því hvort að form geti ekki alveg eins fylgt inntaki í þeim tilfellum alveg eins og í þeim sem ég nefni hér að ofan. Ef ég fæ t.d. kaótískt inntak, er þá ekki viðeigandi að formið sé einnig kaótískt? T.d. ef ég geri veggspjald fyrir pönk tónleika?

Að mínu mati snýst falleg hönnun um það sem er viðeigandi hverju sinni. (Form follows function) Ég gæti reynt að færa rök fyrir því að pönk veggjspjaldið myndi sóma sér betur í fagurfræðilegum anda internationalistanna en svo er sennilega ekki. Góð grafísk hönnun snýst nefnilega einnig um heiðarleika. Hvert er inntak pönk tónleika? Býður það inntak upp á hlutlausa fagurfræðilega nálgun að hætti internationalistanna? Ég tel svarið vera nei. Finnst mér hin póstmóderníska pönkstefna innan grafískrar hönnunar falleg? Persónulega, nei! En virkar stefnan í þessu samhengi? Alveg tvímælalaust!

Hönnuðir þurfa að hugsa út í það hver skilaboðin í verkum þeirra eru. Einhver mætur maður sagði einhverntíman „You can not not communicate“ en ég held að það sé greinarmunur á því að miðla með tilgangi og að miðla til þess að miðla. Mikið af verkum dagsins í dag miðla einungis til þess að miðla. Þau jafnvel trufla farveg réttrar miðlunar. Hjá þessum hönnuðum snýst hönnun að mestu leyti um að fylla blaðsíðu af skreyti eða höfða til ákveðins tíðaranda innan hönnunarsamfélagsins. Eða með öðrum orðum að höfða til „coolsins“ og hunsa samhengi forms og inntaks. Eitthvað sem Adolf Loos myndi snúa sér í gröfinni yfir.

Eins og Siggi Orri sagði hérna fyrr finnst mér slíkar æfingar þó eiga rétt á sér innan veggja þess verndaða umhverfi sem skóli er eða til þess að æfa ákveðinn hæfileika sem nýta má á praktískari sviðum grafískrar hönnunar. Að mínu mati er opinber birting þeirra hinsvegar aðeins réttlætanleg ef að þessar æfingar eru titlaðar sem sjálfssprottin listaverk eða myndskreytingar frá hendi hönnuðana. Þegar „út“ er komið ætti hönnuðurinn að vera búinn að þroska sjálfþekkingargreind sína það vel að hann geti nýtt niðurstöðurnar úr þessum æfingum sem effektíva leið til miðlunar á upplýsingum.

En jæja klukkan er orðin mjög margt og ég er farinn að hallast að því að rauði þráðurinn í þessu svari sé fokinn allsvakalega út um gluggann... læt þetta nægja í bili. Bíst fastlega við að þetta svar muni vekja einhver viðbrögð...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home